154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[15:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér var sett reglugerð árið 2018 af þáverandi ferðamálaráðherra þar sem fyrirtækjum og fjárfestum sem hafa sankað að sér íbúðum til að leigja til ferðamanna allan ársins hring var gert kleift að komast hjá því að skrá íbúðirnar sem atvinnuhúsnæði. Í þessu fólst auðvitað veruleg skattaívilnun sem ýtti svo undir þá þróun að íbúðir voru teknar úr umferð og nýttar undir ferðamenn frekar en til búsetu. Þegar ríkisstjórnin kynnti áform um að taka á stórfelldri skammtímaleigu með skattlagningu, eins og það var orðað í fréttum, þá gerði ég ráð fyrir að farið yrði í það að vinda ofan af áhrifum þessarar reglugerðar og tryggja að íbúðir á skammtímaleigumarkaði verði framvegis skattlagðar sem atvinnuhúsnæði. Þessar lagabreytingar ná ekki því markmiði. (Forseti hringir.) Frumvarpið er ágætt svo langt sem það nær og ég styð það og ég lýsti mig samþykkan (Forseti hringir.) þessu nefndaráliti, en frekari aðgerða er þörf og ég vona að framhald verði á þessu máli sem allra fyrst.